Öryggi í tölvupóstsamskiptum

Tölvuþrjótar nota oftar en ekki tölvupóst til að dreifa sínum óværum og því er nauðsynlegt að hafa þessar tvær reglur alltaf í huga við meðhöndlun á tölvupósti:

1. ALDREI gefa upp lykilorðið ykkar:

Það kemur reglulega fyrir að tölvupóstar sleppa í gegnum póstsíur UTS. Þessir póstar eru oft á tíðum að fiska eftir lykilorðinu ykkar. Oftast eru þetta póstar á bjagaðri íslensku (þó ekki algilt) og virðist koma frá einhverri stofnun HÍ. Tilgangurinn með slíkum póstum er fá ykkur til að skrá ykkur inn á meðfylgjandi síður (og þar með gefa upp lykilorðið ykkar) til að komast hjá eftirtöldu (Þetta eru dæmi um hvernig þeir reyna að fá ykkur til að trúa því að þið þurfið að gefa upp lykilorðin ykkar):

  • Að pósthólfinu verði lokað þar sem það er orðið fullt eða í lítilli notkun
  • Að lokað verður á nettengingu af einhverjum ástæðum
  • Að heimasvæðið muni lokast nema þú gefir upp þínar upplýsingar

Reglan er í raun einföld. ALDREI gefa upp lykilorðið ykkar á síðum sem þið ekki þekkið og ALDREI senda það með tölvupósti. Ef í vafa hafið þá samband beint við Tölvuþjónustu UTS áður en þið aðhafist eitthvað.

2. Viðhengi og tenglar:

Ef þið fáið viðhengi með tölvupóstinum ykkar þá ber að hafa eftirfarandi í huga:

  • Opnið ekki viðhengi sem þið eigið ekki von á nema kanna það nánar
  • ALDREI opna viðhengi frá ókunnum aðilum

Ef þið fáið sent viðhengi frá aðilum sem þið þekkið en áttuð ekki von á er góð regla að senda svar á viðkomandi áður en viðhengið er opnað og spyrja hvort hann hafi verið að senda þér viðhengi. Það kemur fyrir að tölvuþrjótar nota netfang þeirra sem þið þekkið til að reyna fá ykkur til að opna viðhengi sem gætu innihaldið veirur.