RHÍ Fréttir

nr. 34 maí 1998

  

  

  Þorkell Heiðarsson         Ragnar Stefán Ragnarsson
thorkell@rhi.hi.is            ragnarst@rhi.hi.is

Í kjöltu eða lófa
dori1.jpg (7635 bytes) Palmtop og laptop

Ýmsum kann að þykja að þrátt fyrir mikla og hraða tækniþróun tölvunnar undanfarin ár hafi tölvur ekki orðið meðfærilegri og smærri að sama skapi. Nokkuð er til í þessu. Borðtölvur eru þannig enn í stórum og þungum járnkössum sem síst eru minni um sig nú en fyrir nokkrum árum.

Kjöltutölvurnar (laptops) hafa því verið svarið við þörf manna fyrir minni og meðfærilegri tölvur sem hægt er að ferðast með á milli staða. Þær eru þó engar fistölvur, enda vega þær yfirleitt nokkur kíló og geymir fólk þær oft í töskum eða pokum sem getur verið óþægileg viðbót við handfarangur á ferðalögum.

Á undanförnum árum hefur þó þróun kjöltutölva fleygt fram og má þar sérstaklega nefna skjáina sem eru orðnir frambærilegir fyrir myndræna vinnu. Einnig hefur vinnslugeta þeirra aukist. Þessar tölvur eru þó enn dýrar séu þær bornar saman við borðtölvur þrátt fyrir lækkandi verð að undanförnu.

Þriðja tölvugerðin sem mjög er að ryðja sér til rúms um þessar mundir eru svokallaðar lófatölvur (palmtops). Lófatölvur hafa að vísu lengi verið á markaðnum en flestar hafa hingað til einungis boðið upp á sérhæfðan hugbúnað og stýrikerfi. Þetta hefur nú breyst þar flestar nýjar lófatölvur bjóða nú upp á Windows umhverfið ásamt helstu forritum eins og word og excel auk margra annarra hluta sem finna má í Windows95/NT.

Windows kerfið fyrir þessar smátölvur er smækkuð útgáfa af Windows95 og kallast kerfið Windows CE. Eins er annar hugbúnaður oftast smækkuð útgáfa af sambærilegum hugbúnaði fyrir hefðbundnar tölvur.

Mjög einfalt er að flytja gögn á milli lófatölvu og borðtölvu og fylgir lófatölvunum oftast hugbúnaður til þess að uppfæra skjöl á milli vélanna. Þrátt fyrir smæðina bjóða slíkar vélar nú upp á ágætis litaskjái með snertimöguleika. Þá er skjárinn snertur með sérstökum bendipenna í stað músar.

Mikilvægasta þróunin er þó líklega sú að nú er hægt að tengjast internetinu og þar með senda og móttaka tölvupóst á einfaldan hátt með því að kaupa venjulegt PCMCIA mótald (hægt er að fá slíka tengingu hjá RHÍ). Tölvur sem þessar er hægt að fá fyrir minna en 100.000 kr. Þannig eru þessar tölvur kostur sem vert er að gefa gaum þegar ferðatölvan er valin.

Að lokum má geta þess að forstöðumaður RHÍ, Douglas Brotchie, hefur miklu reynslu af notkun lófavéla, enda notað þær árum saman. Hann segir þessar vélar alveg ómissandi  eins konar viðbót við minni manns!

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta gein Fyrri blöð