RHÍ Fréttir

nr. 32 desember 1997

  

  

 

Hafsjór af möguleikum

Þorkell Heiðarsson
thorkell@rhi.hi.is

þessu fréttabréfi höldum við uppteknum hætti og ræðum við starfsmann háskólans um vef og tölvunotkun hans. Viðmælandi RHÍ frétta að þessu sinni er Jörundur Svavarsson prófessor í sjávarlíffræði. Hann starfar við Líffræðistofnun Háskólans að Grensásvegi 12.

Ný og hraðari tenging

Líffræðistofnun var tengd HÍ netinu nýlega þegar sá hluti stofnunarinnar sem er til húsa að Grensávegi 12 var beintengd. Þessi tenging var gerð í samvinnu RHÍ og Fasteigna ríkisins sem greiddu hluta lagningarkostnaðar Jörundur segir að beintenging við Háskólann breyti miklu hvað varðar netgleði starfsmanna en áður en húsið var nettengt urðu starfsmenn að láta sér hægvirkt og óáreiðanleg mótaldsamband nægja. Þessi nýja tenging er mun hraðvirkari og í alla staði þægilegri en sú eldri og opnar starfsfólki nýja möguleika, þar á meðal við vefsíðugerð.

Nútímaleg kennsluaðstaða

Aðspurður segist Jörundur þó ekki hafa nýtt vefinn til kennslu enn sem komið er enda að ljúka ársleyfi frá kennslu. Hann kveðst þó sem formaður hússtjórnar á Grensásveginum hafa beitt sér fyrir uppbyggingu nýrrar kennsluaðstöðu sem tekur mið af nýjum þörfum og kennsluháttum. Þannig hefur verið útbúin kennslustofa á Grensásvegi 12 þar sem hægt er að kenna með aðstoð skjávarpa og fistölvu sem síðan er hægt að tengja netinu.

Er að byrja að vefa

Jörundur er þessa dagana að stíga sín fyrstu skref sem vefari og segir það hafa komið sér á óvart hversu auðvelt sé að útbúa einfaldar vefsíður. Hann vill þó meina að til staðar séu þó þröskuldar sem geri vefsíðuferlið flóknara, að því er virðist að ástæðulausu. Sýnist honum að vefsíðugerð kennara mætti njóta meiri stuðnings háskólayfirvalda, bæði hvað varðar fé og fræðslu, auk þess að æskilegt væri að um einhvers konar heildarskipulagningu væri að ræða í þessum málum innan háskólans.

Vinnuhagræðing

Jörundur segir aukna samskiptatækni byggða á veraldarvefnum koma sér vel um þessar mundir. Ástæðan sé sérstaklega tímasparnaður og vinnuhagræðing ísíauknu erlendu samstarfi. Sem dæmi geti hann nú auðveldlega skrifað greinar í samstarfi við nokkra erlenda aðila í einu. Þetta er fyrst og fremst tölvupósti að þakka, en einnig ýmsum öðrum möguleikum tölvunnar. Þar nefnir hann sem dæmi skemmtilegan eiginleika í nýrri útgáfum af ritvinnsluforritinu Word, svo kallað revision (breytingarstjóri), en með því tóli er hægt að leiðrétta skjöl og gera leiðréttingarnar sýnilegar öðrum sem að ritsmíðinni vinna þrátt fyrir að skjalið sé sent manna á milli í tölvupósti. Í tengslum við greinaskrif höfðu sænskir samstarfsaðilar samband og hvöttu hann til þess að ræða við þá yfir netið í vefsíma. Þetta hafi hann nýlega reynt með ágætum árangri. Hann telur þessa tækni bjóða upp á persónulegra samband við samstarfsaðila, auk þess að lækka kostnað vegna símanotkunar. Þrátt fyrir allt þetta vefæði kveðst Jörundur rýna hóflega í vefinn og nýta hann fyrst og fremst til gagnaleitar. Að lokum fara hér nokkrar athyglisverðar vefsíður að mati Jörundar:

Fyrst eru síður sem tengjast rannsóknum Jörundar á áhrifum mengunarefna á lífverur sjávar.

www.tmc.tulane.edu/ecme/eehome/basics/eeefects

Á þessum vef er meðal annars fjallað um hormónaherma.

www.hollver.is/hollver/sjomeng/menvarsjo/mv_HEIMASIDA.HTM

Þetta er heimasíða mengunarvarna sjávar við Hollustuvernd ríkisins.

http://irptc.unep.ch/pops/

Þessi heimasíða tilheyrir UNESCO, nánar tiltekið IOC (Intergovermental Oceanographic Commission) og er þar að finna margvíslegar upp-lýsingar um námskeið, rannsóknarverkefni og fleira tengt hafinu.

Hér eru síðan vefsíður almenns eðlis, þar sem finna má ýmislegt til gagns
og gamans.

www.nationalgeographic.com

Það er óhætt að mæla með vef tímaritsins National Geographic sem inniheldur ákaflega forvitnilegt efni sem höfðar til náttúruáhugamanna á öllum aldri, ekki hvað síst yngsta fólksins.

www.vedur.is

Á þessari og svipuðum síðum er hægt að fylgjast með veðrum og vindum með því að skoða nýjustu gervi-tunglamyndirnar sem eru uppfærðar með stuttu millibili.

http://uncweb.carl.org

Þetta er gagnabanki yfir birtar tímaritsgreinar úr um 17.000 tímaritum.

www.textavarp.is

Þetta er textavarp sjónvarps á vefnum og kennir þar ýmissa grasa. Þarna er sem dæmi hægt að sjá hitastig og færð á heiðum landsins um beintengdar veðurathugunarstöðvar.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Næsta grein Fyrri blöð