RHÍ Fréttir

nr. 22 október 1994

  

  

Steingrímur Birgisson

Internet í flugtaki

Á síðustu misserum hefur verið heilmikil gróska á Internet og í dag þykir enginn maður með mönnum nema hann sé á einhvern hátt tengdur þessu fyrirbæri. Fjöldi tölva sem tengdar eru Internet hefur farið stigveldishækkandi hvort sem er hér á landi (mynd 1) eða á öllu netinu (mynd 2). Ekki þarf að örvænta þótt fjöldinn fari ört vaxandi því IP staðallinn, sem Internet byggir á í netsamskiptum, leyfir fleiri tölvum að tengjast því en svo að áhyggjur þurfi að hafa af í náinni framtíð. Það sem er hins vegar alvarlegra er að netumferð er orðin það mikil um Internet, meðal annars með tilkomu World-Wide Web, þar sem hljóð og myndir fara um netið, að það þykir vera orðið takmarkandi þáttur í uppbyggingu þess. Er það von manna að hægt verði að bregðast við því með tíð og tíma, meðal annars með því að auka flutningsgetu (bandvídd) á samskiptalínum til að bera meiri netumferð.

Mynd 1 Mynd 2

Ókeypis?

Í hugum margra sem eitthvað hafa notað Internet hefur það verið fyrirbæri sem hefur verið jafnsjálfsagt eins og kalda vatnið úr krananum, þ.e.a.s. "ókeypis". Það virðist vera útbreiddur misskilningur hjá mörgum, bæði í máli og riti, að ekkert þurfi að borga fyrir þennan aðgang. En samkvæmt upplýsingum frá SURÍS þá skipti kostnaðurinn á rekstri á Internet hér á landi tugum milljóna króna á síðasta ári og er ekkert sem bendir til annars en hann eigi eftir vaxa, ekki bara vegna meiri netumferðar vegna fleirri tengdra tölva heldur einnig í formi hljóðs og mynda með tilkomu World-Wide Web, sem þýðir að leigja þarf stærri samskiptalínu með meiri bandvídd og hefur þar af leiðandi í för með sér meiri rekstrarkostnað.

Stýring!

Því hefur verið haldið fram að netumferð á Internet sé algjörlega stjórnlaus þar sem fólk geti gert nánast hvað sem er í upplýsingadreifingu og að ekkert geti komið í veg fyrir að hægt sé að nota Internet í misgóðum tilgangi.

Í því sambandi má nefna að Internet er samansett úr smærri einingum (undirnet) sem síðan skiptast niður í enn smærri einingar allt þar til komið er niður í einstakar vélar sem síðan eiga allar að vera skráðar í DNS (Domain Name System). Í hverri einingu er aðili sem er ábyrgur fyrir því að eðlileg netumferð fari um hana, þannig að sé eitthvað óeðlilegt í gangi þá hefur sá stjórnandi möguleika til þess að loka á netumferð frá þeirri einingu án mikillar fyrirhafnar. Hann getur einnig lokað á netumferð til einingar. Þetta kallar á það að menn sýni eilitla ábyrgðartilfinningu í vafstri sínu á Internet því það er hæglega hægt að loka á alla netumferð frá t.d. Íslandi ef mönnum sýnist svo út í hinum víða Internet heimi!

Flatbökur á Interneti

Nú geta svangir Internet notendur pantað sér pizzu frá Pizza Hut (enn sem komið er aðeins þeir sem staðsettir eru í Santa Cruz).

Gerð var athugun á þessari dásamlegu tækni í september mánuði á SCO (University of California) Forum í Santa Cruz. Ekki fór þó allt alveg eins og til var ætlast. Pöntunin gekk greiðlega fyrir sig, en þó skildu menn ekki af hverju starfsliðið á Hut hringdi til baka til að athuga hvort menn vildu virkilega svona margar pizzur þegar hægt hefði verið að nota tölvupóst!

En hvað um það, menn biðu spenntir eftir að verða vitni að yfirburðum þessara hröðu boðskipta, enda þótt þau væri aðeins aðra leiðina á Netinu. Korter leið. Hálftími leið. Klukkutími leið.

Að lokum eftir klukkutíma og tuttugu mínútur kom sendillinn með hálfvolgar pizzur og var honum tekið með slíkum fagnaðarlátum að vart var hægt að merkja! Þá kom í ljós að pizzusendillinn hafði fengið vitlaust heimilisfang í hendurnar og hafði fyrst farið í höfuðstöðvar SCO sem eru neðar í götunni áður en hann komst á leiðarenda.

Internet í loftsteinahríð

Á meðan einnar milljónar megatonna sprengikraftur var að leysast úr læðingi á yfirborði Júpíters þegar brotin úr halastjörnunni Shoemaker-Levy 9 dundu yfir hann um miðjan júlí í sumar, varð Internet fyrir svipaðri árás þegar fjölmargir gerðust allt í einu miklir áhugamenn um stjörnufræði og fóru að sækja myndir af árekstrunum í massavís út á netið. Þetta varð til þess að þó nokkrir upplýsingaþjónar hjá stjörnuathugunarstöðvum hrundu niður út af álagi vegna hundruða og þúsunda beiðna um myndir af viðburðinum. Þetta varð til þess að athugunarstöðvar allt frá Suður-Afríku til Maryland í Bandaríkjunum urðu í örvæntingu sinni að búa til stór myndasöfn til þess að losa stífluð upplýsingakerfi frá brjáluðum stjörnufræðiáhugamönnum!

Nokkrar af myndunum vinsælu.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ