RHÍ Fréttir

nr. 22 október 1994

  

  

Sigfús Magnússon

Guðmundur Bjarni Jósepsson

Ýmislegt frá Macintosh deildinni

Í aprílhefti fréttabréfsins var sagt frá Power Mac tölvum, en þær nota nýja gerð af örgjörvum sem kallast PowerPC. Nú er væntanlegur nýr PowerPC gjörvi, PowerPC 620.

Nýji gjörvinn mun verða mun afkastameiri en fyrri gjörvar hvað varðar hraða og fjölverka möguleika, segja IBM og Motorola, sem hanna gjörvann.

Hermt er að fyrsta útgáfan af 620 örgjörvanum muni keyra á 150 megariðum en að samskipti við aðra hluta tölvunnar fari fram á 75 megariðum. PowerPC 604, sem er öflugasti PowerPC örgjörvinn sem ennþá hefur verið gerður, mun keyra á 100 megariðum þegar hann kemur á almennan markað í vetur.

620 örgjörvinn á að geta keyrt allt að 6 skipunum á hverjum klukkupúls og SPECint92 gjörvans á að verða hærra en 200. SPECint92 604 örgjörvans er 160. PowerPC 620 á að verða með 64KB skyndiminni sem er tvöfalt meira en PowerPC 604 hefur.

PowerPC 620 mun skara fram úr fyrirrennurum sínum í mörgu öðru, sérstaklega í kerfum sem hafa fleiri en einn örgjörva. Til dæmis, ef upp kemur minnisvilla í slíku kerfi leyfir 620 örgjörvinn minninu að endurskipuleggja sig. Eins ef einn PowerPC 620 bilar í fjölgjörva kerfi getur kerfið samt haldið keyrslu áfram. Hvorugur þessara möguleika er fáanlegur með öðrum PowerPC gjörvum.

Frumgerð 620 gjörvans mun líta dagsins ljós nú í október en ætlunin er að hefja fjölda- framleiðslu á honum á næsta ári.

Afritataka

Macintosh deild Reiknistofnunar vill endilega minna á afritunarþjónustu sem hún býður upp á.

Á hverju miðvikudagskvöldi er tekið afrit af vélum áskrifenda þjónustunnar á DAT band. Bandið er síðan geymt í eldtraustu herbergi Reiknistofnunar. Reglan er sú að einu sinni í mánuði er tekið heildarafrit af diskum en þess á milli er einungis tekið afrit af því sem hefur breyst frá síðustu afritun. Heildarafritin eru geymd í 6 mánuði. Hægt er að semja um annað fyrirkomulag ef þörf krefur.

Miðað við það öryggi sem þessi þjónusta veitir er hún mjög ódýr. Nýjir áskrifendur þurfa að greiða kr. 5000 fyrir hugbúnað og uppsetningu hans. Síðan kosta hver byrjuð 100 megabæti kr. 100.

Reynslan hefur sýnt að meðalkostnaður áskrifenda er um kr. 400 á mánuði þannig að allir ættu að hafa efni á þessu.

Nánari upplýsingar um afritatökuna veitir Sigfús.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ