RHÍ Fréttir

nr. 24 febrúar 1995

  

  

Guðmundur Bjarni Jósepsson Sigfús Magnússon

Tenging við Internet gegnum Reiknistofnun

Nýjasta tískufyrirbrigðið í dag er Internet. Talað og skrifað er um netið í útvarpi, sjónvarpi og dagblöðum. Fyrirtæki eru farin að auglýsa vörur sínar og þjónustu á Internet, blöð birtast þar í síauknum mæli og stjórnmálamenn eru jafnvel farnir að auglýsa sjálfa sig.

Reiknistofnun hefur í nokkur ár boðið utanaðkomandi aðilum aðgang að netinu þótt aðal áherslan hafi verið lögð á að tengja starfsfólk og nemendur skólans. Starfsmenn Reiknistofnunar verða því mikið varir við þennan aukna áhuga á netinu því fólk leitar til okkar til að komast inn á netið. Hér verður stuttlega rakið hvaða leiðir fólk hefur til þess.

Skilyrði til að tengjast netinu er að notandi hafi fengið úthlutað notandanafni og leyniorði. Nemendur skólans eiga að sækja slíkt til nemendaskrár í Aðalbyggingu en aðrir verða að snúa sér til Reiknistofnunar.

Tölvuver
Reiknistofnun rekur 4 tölvuver: í Odda, Árnagarði, Vetrarhöll og Grensási. Langstærstur hluti tölva í tölvuverum eru nettengdar PC tölvur en þó er þar að finna nokkrar Macintosh tölvur sem einnig eru nettengdar.

Á þessum vélum er búnaður sem gerir notendum kleift að tengjast skráaþjónum og nota þá sem þeir væru diskar á PC tölvu. Einnig er hægt að tengjast Unix vélum eins og Hengli og Heklu frá PC tölvum í tölvuverum. Yfirleitt er sú tenging á textaformi (telnet) en á HP tölvum í Vetrarhöll er hægt að tengjast með forriti sem býður upp á myndrænt viðmót (XVision).

Tenging frá Macintosh tölvunum í tölvuverunum er einungis í gegnum telnet, þ.e. á textaformi.

PC tölvur með beina Ethernet tengingu
Notendur sem eru staðsettir í háskólabyggingum sem tengdar eru við háskólanetið með Ethernet tengingu geta tengt PC tölvur sínar við netið. Sem dæmi um slíkar byggingar má nefna Odda, VR II, Árnagarð og fleiri.

Sækja þarf að um slíka tengingu til Reiknistofnunar. Starfsmenn Reiknistofnunar munu þá útvega hugbúnað, vélbúnað og annað sem nauðsynlegt er. Best er að notandi sé búinn að sækja um og fá úthlutað notandanafni og lykilorði þegar hann sækir um nettengingu.

Búnaðurinn sem notendur fá er samskonar og sá sem notaður er í tölvuverum og býður upp á sama aðgang, þ.e.a.s. telnet og tengingu við skráaþjóna. Þeir sem hafa nógu öflugar PC vélar geta einnig fengið XVision til að geta nýtt sér hið myndræna viðmót.

Reiknistofnun býður notendum sínum upp á ýmsan hugbúnað fyrir Windows sem auðveldar aðgang að netinu. Má þar meðal annars nefna Eudora, sem er tölvupóstforrit, og Netscape, sem er biðlari fyrir World-Wide Web.

PC vélar tengdar gegnum PC router
Sumar byggingar háskólans eru tengdar háskólanetinu í gegnum svokallaða PC routera. Tengingar PC véla frá slíkum byggingum eru takmarkaðri en þeirra sem talað er um hér að framan. Dæmi um slíka byggingu er Hagi.

Notendur í þessum byggingum geta fengið búnað hjá Reiknistofnun sem gerir þeim kleift að tengjast með telnet en þeir geta ekki tengst skráaþjónum og notað sem PC diska. Þessir notendur geta einnig notað Eudora og Netscape en til þess þarf að fá enn einn hugbúnaðarpakkann.

Macintosh tölvur
Notendur í flestum háskólabyggingum geta tengt Macintosh tölvur sínar við háskólanetið, hvort sem tölvur þeirra eru Ethernet-, Localtalk- eða PhoneNettengdar. Þetta á við um:

  • Aðalbyggingu*
  • Aragötu 14*
  • Árnagarð
  • Eirberg*
  • Haga
  • Læknagarð*
  • Odda*
  • Raunvísindastofnun*
  • Sumarhöll
  • Tæknigarð*
  • VR2
  • VR3

(*Þau hús sem eru með LocalTalk eða PhoneNet).

Til að tengja Macintosh við háskólanetið þarf í flestum tilfellum mjög einfaldan og ódýran búnað. Í flestum háskólabyggingum er svokallað LocalTalk eða PhoneNet og þarf engan búnað í tölvurnar til að tengjast við það nema snúru. Síðan þarf náttúrulega hugbúnað sem notendur fá hjá Reiknistofnun. Sá hugbúnaður sem Reiknistofnun dreifir er:

  • Eudora
  • Telnet
  • Fetch
  • TurboGopher
  • Netscape
  • NewsWatcher

Æ fleiri hús háskólans bjóða núna upp á Ethernet tengingu sem er mun hraðvirkari en LocalTalk eða PhoneNet tenging og eru Macintosh eigendur hvattir til að notfæra sér það. Hins vegar þurfa tölvur Ethernet spjald eða tengi til að tengjast við Ethernet og fyrir flestar Macintosh tölvur (allar nema Plus og Classic) er slíkt tiltölulega ódýrt. Þess má geta að margar nýrri Macintosh tölvur hafa slíkt tengi innbyggt (PowerMac,Quadra,...).

Tenging með mótaldi
Enn sem komið er býður Reiknistofnun ekki upp á svokallaða SLIP tengingu heldur einungis upphringisamband.

Til að tengjast þannig þarf notandi að hafa bæði mótald og samskiptahugbúnað. Mótaldið útvega notendur sér yfirleitt sjálfir en Reiknistofnun getur látið þeim í té samskiptahugbúnaðinn. Oft fylgir þó slíkur búnaður nýjum mótöldum.

Tenging í gegnum mótald til Reiknistofnunar býður einungis upp á textaaðgang, eins og telnet.

Þetta er þó ekki alveg rétt því notendur með nógu hraðvirk mótöld geta fengið aðgang svipaðan þeim sem PC router býður upp á og notað bæði Eudora og Netscape en til þess þarf að fá aukahugbúnaðinn sem minnst var á áður og auk þess einn pakka í viðbót.

Nánari upplýsingar veita Sigfús og Guðmundur.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ