RHÍ Fréttir

nr. 22 október 1994

  

  

Kristján Gaukur Kristjánsson

Fréttir af nemendakerfi

Nemendakerfi Háskólans er rúmlega tveggja ára í núverandi mynd.

Í þeirri endurskipulagningu sem átti sér stað á sínum tíma var ákveðið að gerbylta skráningu á persónulegum upplýsingum nemenda. Í stað þess að treysta á að breytingar á lögheimili og aðsetri væru tilkynntar til Háskólans var farið út í samvinnu við Hagstofu Íslands um beintengingu nemendakerfisins við þjóðskrá. Uppfærsla af þjóðskrá væri fengin einu sinni í mánuði og þar væru til staðar allar breytingar á póstföngum, enda beindi nemendaskrá öllum breytingarbeiðnum til Hagstofunnar. Þetta hafði einnig þau áhrif að ekki var lengur hægt að tilkynna HÍ nýtt aðsetur sem aldrei var síðan skráð hjá Hagstofunni.

Þegar reynsla fór að komast á þessa tilhögun komu í ljós tveir gallar. Annars vegar sá að þegar flutt er inn í ný(skráð) hús þá komu breytingar á því ekki reglulega frá Hagstofu, og hins vegar að útlendingar sem komu hér til náms og fluttu ekki lögheimili sitt til landsins fóru aldrei inn á hina raunverulegu þjóðskrá (þrátt fyrir að fá úthlutað kennitölu) og urðu því alls auðkennalausir einstaklingar í nemendakerfinu (póstfangs-, kyn- og þjóðernislausir).

Nú hefur verið haldinn fundur með Hagstofunni þar sem unnið var að lausn þessara mála. Fyrra málið verður auðleyst með mánaðarlegri uppfærslu nýskráðra bygginga. Seinna málið kallar hins vegar á samvinnu Hagstofunnar og Háskólans.

Vegna alþjóðasamninga er það mismunandi hvenær nemendum ber að skrá sig í nýju landi. Sumir geta verið allt að 6 mánuði í landinu áður en þeim ber að flytja heimili sitt. Af þessum sökum verður nemendakerfið að heimta skráningu á persónuupplýsingum þessara aðila strax við nýskráningu og síðan í samvinnu við Hagstofuna að koma þeim inn á þjóðskrá stundi þeir nám fram yfir þann tíma sem þeim ber að sinna skráningarskyldu.

Ofangreindra vandamála hefur helst orðið vart hjá þeim sem þurft hafa að ná póstsambandi við þá aðila sem svona hafa týnst í kerfinu. Þar má til dæmis nefna að þeir sem fengið hafa límmiða til póstsendinga hafa ekki getað sent upplýsingar til óskráðra útlendinga og nemenda sem flutt hafa í nýjustu stúdentagarðana á hverju ári.

En nú sér fyrir endann á þessu og stuðla þessar lausnir vonandi enn frekar að réttum skráningum nemenda bæði hjá Háskóla Íslands og Hagstofunni.

  
Notendaþjónusta RHÍ,  16. febrúar 2000 

Efnisyfirlit Fyrri grein Næsta grein Önnur fréttabréf RHÍ